Súfistinn í 18 ár

(Frá Súfistanum í Máli og Menningu )

Súfistinn er á tveimur  stöðum: Strandgötu 9  Hafnarfirði en  Bókakaffi Súfistans er  í  Bókabúð Máls og menningar að  Laugavegi 18.

Súfistinn var stofnaður árið 1994 með það að markmiði að taka virkan þátt í að breyta og móta kaffi- og kaffihúsamenningu okkar Íslendinga. Með þetta að leiðarljósi var stofnsett kaffihús í hjarta Hafnarfjarðar en árið 1996 var bókakaffi Súfistans sett á fót í húsnæði Máls og menningar að Laugarvegi 18.

Sérstaða Súfistans sem kaffihúss  hefur öðru fremur mótast af því að frá fyrsta degi hefur Súfistinn ristað, „brennt“, sitt eigið hrákaffi í eigin brennsluofni.

Með kaupum á nýju húsnæði fyrir kaffibrennsluna hafa skapast tækifæri til þess að verða við óskum fjölmargra viðskiptavina um að hefja þjónustu við  fyrirtæki og stofnanir. Nú þegar eru  allmörg fyrirtæki sem nýta sér þessa þjónustu, einnig skólar og bankastofnanir. 


Súfistinn hefur fyrir löngu öðlast mikilvægan sess í borgarlífi Reykvíkinga og bæjarlífi  Hafnfirðinga. Á Súfistann koma viðskiptavinir á öllum aldri til að hitta mann og annann ásamt því að leysa lífsgátuna með kaffibolla í hönd. Einkennandi fyrir þessa staði er einstök sambúð menningar, bóka, blaða og kaffiveitinga. Hér hafa fjölmargir listamenn, rithöfundar og tónlistarmenn verið reglulegir gestir í gegnum árin  og kynnt list sína. 

Súfistinn var fyrstur til að opna  bókakaffi á Íslandi en  einnig var Súfistinn  fyrsta reyklausa kaffihúsið á Íslandi

(Frá Súfistanum í Hafnarfirði )


Á þessum tíma þótti ýmsum hugmyndin að baki bókakaffis vera mjög nýstárleg og frumleg en öðrum þótti hugmyndin vera fáránleg, bækur og kaffihús átti ekki saman enda voru miklar reykingar eitt aðal einkenni kaffihúsa þess stíma. 

Því var spáð að reyklaust kaffihús myndi aldrei þrífast í Reykjavík svo nátengt væri allt vitsmuna- og menningarlíf reykingum. 

Strax frá fyrsta degi var bókakaffi Súfistans í Máli og menningu vel tekið og viðskiptavinir rómuðu alla þjónustu og veitingar.

Markmið Súfistans frá upphafi hefur verið  að bjóða góðar veitingar á sanngjörnu verði og  nú í dag er Súfistinn fyrir löngu orðinn landsþekktur fyrir frábærar tertur, afbragðsgóða smárétti og gott kaffi. 

Það eru hins vegar ekki allir sem vita að Súfistinn rekur einnig  kaffibrennslu sem hefur öðlast mikla virðingu kaffiáhugamanna.

Kaffið er einungis selt á kaffihúsum  Súfistans en með því móti er tryggt að kaffið er alltaf ferskt þegar það kemur í bolla viðskiptavinarins.

Súfistinn lítur á kaffið sem  "ferskvöru" og er  tíminn frá ristun  því talin í klukkustundum en ekki í mánuðum.